Sagan

Vörumiðlun ehf var stofnuð árið 1996 með samruna Flutningadeildar KS og Vöruflutninga Magnúsar Svavarssonar á Sauðárkróki. Kaupfélag Skagfirðinga hafði þá um langt skeið rekið flutningadeild sem sá um flutninga fyrir félagið frá Reykjavík og sinnti útibúum félagsins í Skagafirði. Vöruflutningar Magnúsar voru stofnaðir árið 1979, byrjuðu smátt og var aðal verkefnið akstur milli Sauðárkróks og Akureyrar. Árið 1986 stækkaði reksturinn nokkuð þegar keyptur var rekstur vöruflutninga Kristjáns og Jóhannesar, en þá bættust við fast ferðir milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Við samrunann varð til öflugt flutningafyrirtæki með afkastamikinn flota flutningatækja af ýmsu tagi. Vörumiðlun ehf var upphaflega í 60% eigu KS og 40% í eigu Magnúsar en í dag alfarið í eigu KS. Magnús Einar Svavarsson er framkvæmdastjóri Vörumiðlunar og hefur hann verið það frá stofnun félagsins. Stjórnarformaður er Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri.

Árið 2004 voru flutningafyrirtækin Húnaleið á Skagaströnd og Tvisturinn á Blönduósi sameinuð Vörumiðlun. Árið 2006 var flutningadeild KVH á Hvammstanga seld Vörumiðlun. Um áramótin 2009-2010 keypti Vörumiðlun flutningadeild KSH á Hólmavík. Vörumiðlun hóf akstur á Hellu og Hvolsvöll árið 2015 og Kirkjubæjarklaustur og Vík í Mýrdal árið 2016. Sama ár var gerður samningur við Smyril Line um akstur vagna á þeirra vegum, sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar, og þeirra skipum til Þorlákshafnar, vikulega allt árið um kring.

Árið 2017 kaupir Vörumiðlun Fitjar-Flutninga ehf. og hóf akstur á Suðurnesjum. Höfuðstöðvar Vörumiðlunar eru á Eyrarvegi á Sauðárkróki en að auki hefur fyrirtækið starfsstöðvar á Blönduósi, Hvammstanga, Reykjanesbæ, Hólmavík, Búðardal, Hellu, Kirkjubæjarklaustri, Akureyri og Reykjavík. Vörumiðlun hefur til umráða tæplega fjörtíu flutningabifreiðar af ýmsum stærðum og gerðum, auk vagna, lyftara og hjálparbúnaðar af ýmsu tagi. Þá sér Vörumiðlun um alla uppskipun og löndun í Sauðárkrókshöfn. Fastráðnir starfsmenn fyrirtækisins telja um 80, auk starfsmanna í löndun og ýmis konar íhlaupavinnu. Búseta starfsmanna er dreifð en tengist í flestum tilfellum þeim starfsstöðvum sem fyrirtækið er með. Vörumiðlun er þriðja stærsta fyrirtæki landsins í vöruflutningum, á eftir Eimskip og Samskip.

Vörumiðlun býður upp á daglegar ferðir á flestum sínum leiðum. Vörumiðlun er aðili að stóru flutningsneti, sem nær yfir land allt, í samvinnu við Samskip og Eimskip/Flytjanda. Lagt er áherslu á að veita góða og örugga þjónustu á sanngjörnu verði. Góður og fjölbreyttur tækjakostur vegur þungt í að auka möguleika á hagkvæmum lausnum. Vörumiðlun hefur til margra ára annast föst verkefni við ýmis konar sérhæfða flutninga í tengslum við iðnað og matvælaframleiðslu. Til þess þurfa bílarnir að vera vel útbúnir kæli-, frystitækjum og lyftum. Áhersla er lögð á virkt gæðaeftirlit með Gámess-vottun. Þá má nefna fjölda starfsmanna sem búa yfir mikilli reynslu og sækja sér reglulega endurmenntun, meðal annars ADR-réttindi. Fyrirtækið hefur til umráða um fimmtíu flutningabifreiðar af ýmsum stærðum og gerðum, auk vagna, lyftara og hjálparbúnaðar af ýmsu tagi.

Allir bílar fyrirtækisins eru nýir eða nýlegir og búnir mengunarvarnarbúnaði.