Árið 2004 voru flutningafyrirtækin Húnaleið á Skagaströnd og Tvisturinn á Blönduósi sameinuð Vörumiðlun. Árið 2006 var flutningadeild KVH á Hvammstanga seld Vörumiðlun. Um áramótin 2009-2010 keypti Vörumiðlun flutningadeild KSH á Hólmavík. Vörumiðlun hóf akstur á Hellu og Hvolsvöll árið 2015 og Kirkjubæjarklaustur og Vík í Mýrdal árið 2016. Sama ár var einnig gerður samningur við Smyril Line um akstur vagna á þeirra vegum, sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar vikulega allt árið.
Höfuðstöðvar Vörumiðlunar eru á Eyrarvegi á Sauðárkróki en að auki hefur fyrirtækið starfsstöðvar á Blönduósi, Hvammstanga, Hólmavík, Búðardal, Hellu, Kirkjubæjarklaustri, Akureyri og Reykjavík. Vörumiðlun hefur til umráða tæplega fjörtíu flutningabifreiðar af ýmsum stærðum og gerðum, auk vagna, lyftara og hjálparbúnaðar af ýmsu tagi. Þá sér Vörumiðlun um alla uppskipun og löndun í Sauðárkrókshöfn. Fastráðnir starfsmenn fyrirtækisins telja vel á fimmta tug, auk starfsmanna í löndun og ýmiss konar íhlaupavinnu. Búseta starfsmanna er dreifð en tengist í flestum tilfellum þeim starfsstöðvum sem fyrirtækið er með. Vörumiðlun er þriðja stærsta fyrirtæki landsins í vöruflutningum, á eftir Eimskip og Samskip.